Wednesday, February 03, 2021

Dyirbal og íslenska

Í gær lenti ég í umræðum á netinu við fólk um stöðu íslensku í tengslum við bréf menntamálaráðherra til framkvæmdastjóra Disney. Það er ansi margt fólk sem trúir því að áhyggjur af stöðu mála séu hrein hystería, að íslensk menning standi á traustum fótum og að aldrei hafi verið jafnmargir íslenskir málhafar á lífi á sama tíma. Þetta kann allt að vera satt – en á sama tíma er það líka satt á þrýstingurinn á íslenskt mál hefur líklega aldrei verið meiri.

Síðustu misseri hef ég verið að kynna mér tungumálið dyirbal sem er merkilegt fyrir fjöldamargar sakir. Dyirbal (og forverar þess) hefur verið talað í Northeast Queensland í Ástralíu í um 12.000 ár – það er, þangað til um níunda áratuginn. 

Bókin sem ég hef verið að lesa er málfræðibók og helsta lifandi heimildin um málið. Hún er eftir hvítan ástralskan prófessor og málvísindamann, Robert Dixon (The Dyirbal Language of North Queensland), sem hann gaf út 1972 eftir áratug af vettvangsrannsóknum meðal Dyirbalŋan, en svo kallaðist fólkið sem talaði málið.

Aldrei urðu málhafar fleiri en fimmþúsund þegar mest var og þó lifði þetta tungumál samfellt í gegnum árþúsundin. Dyirbalŋan áttu sér ekki mikla rithefð fyrr en undir lokin en áttu sér munnlega málhefð sem virðist vera alveg samfelld. Sagnir af miklu eldgosi sem jarðfræðin hefur fundið skýrar vísbendingar um lifðu í bundu máli fólksins í minnsta kosti 10.000 ár.

Þangað til um rétt fyrir '90.

Robert segir frá því í síðari ritgerð sem hann gaf út '91 að þá ætti hann eftir aðeins þrjá heimildamenn á lífi. Frá því hann hóf rannsóknir sínar '63 og þangað til hann fór í síðast í heimsókn '89 fækkaði málhöfum úr nokkrum hundruðum í þrjá. '63 töluðu mörg hundruð manns málið, þar með talin allnokkur börn, og eitt merkilegasta einkenni málsins, svokallað tengdamóðurmál var enn við lýði. Tengdamóðurmál, í stuttu máli, er sérstakt sett af orðaforða sem verður að nota í kringum ákveðna tabú-fjölskyldumeðlimi, svo sem tengdamóður manns. Hvert einasta nafnorð, sagnorð, og lýsingarorð á sér þá hliðstætt orð sem verður að nota í áheyrn þessara fjölskyldumeðlima. Þegar áðurnefnd málfræðibók var gefin út '72 var notkun þessa þó þegar liðin undir lok. Á einum áratugi hvarf heill kimi menningarheims þessa fólks.

Tíu árum síðar var varla neitt eftir.

Í þessu tungumáli var mjög sérstætt málfræðikerfi sem mundi örugglega gera ykkur agndofa ef ég mundi byrja að lýsa því fyrir ykkur. Fyrir utan mjög áhugavert verknaðarfallskerfi (sem reyndar má finna í málum um allan heim) er ýmislegt sem kemur okkur spánskt (eða djírbalskt) fyrir sjónir. Ekkert orð er til í málinu fyrir ef. Skilyrði eru sett fram á ýmsan máta en það fer eftir eðli þeirra og viðhorfi mælanda til þeirra. Nútíð og þátíð eru sama tíðin – á móti þeim stendur framtíð. Þetta er auðvitað alveg öfugt við íslensku. Og svo framvegis og svo framvegis.

Eitt finnst mér þó sérlega áhugavert og það minnti mig að vissu leyti á íslenskuna þótt ólíkt sé að undirliggjandi mekanisma. Með nafnorðum þarf að standa eins konar greinir sem tiltekur hversu nálægt hluturinn er sem og hvort hann sé sjáanlegur. Við þessa greina má bæta við viðskeytum sem tilgreina mjög nákvæmlega afstöðu hlutanna (uppi í hlíð, fyrir neðan, hinumegin við ánna). Í löndum þessa fólks var hver einasta á, hver einasti lækur, hver einasta lækjarbugða, hvert einasta tré og hver einasti grjóthnullungur með nafn. Vegna þess hve nákvæmlega tungumálið gat lýst staðsetningu og eiginleikum staðhátta var ómögulegt fyrir Robert að ákvarða í öllum tilvikum hvort um væri að ræða sérnöfn eða einfaldlega mjög sértækar lýsingar. Þegar ég ferðast um Ísland og ræði við heimamenn kemur í ljós að til er nafn yfir ekki bara læki, kletta og móa, heldur helstu hraunmola og þúfur sem þar má finna. Í þessari þekkingu felst líka vitund um hvar má finna þrútnustu hrútaberin og hvar sé líklegast að sjá erni á flugi. Þetta er þekking, aðallega munnleg, sem við búum yfir og mundi glatast ef íslenskan liði undir lok.

Vegna kynþáttaníðs og rasisma, skorts á stuðningi frá ríkisstjórn Ástralíu, ágangs á lönd Dyirbalŋan og þrýstings frá ensku, leið þetta tungumál og málheimur þess undir lok. Ef ekki væri fyrir einn akademíker vissum við mjög fátt um það í dag enda var fyrri þekking hroðvirknislega unnin og rituð af oft rasískum amatörum. Íslenska mundi aldrei hverfa á sama hátt. Við eigum gríðarlegt safn af rituðum heimildum, bæði prentuðum og stafrænum, og hægt er að lesa sér til um íslenska málfræði og þjóðhætti á flestum evrópumálum. En slík þekking er ekki það sama og að kunna málið í innstu heilarótum. Tungumál eru áhugaverð fræðilega séð en fræðileg rannsókn á þeim nær ekki á topp tíu listann yfir af hverju þau eru mikilvæg.

Ef það er eitthvað sem mig langar að hnykkja á úr lærdómi mínum um dyirbal og mælendur þess þá er það það, að tungumál deyja fyrst hægt, og svo hratt. Eftir að hnignunin hefst er mjög erfitt að snúa henni við. Þetta er ekki hræðsluáróður, heldur vísindaleg staðreynd. Að lokum vil ég segja að ég er ofboðslega þakklátur fyrir þennan hóp. Ég er þess fullviss að aukin málvitund og jákvæð umræða eins og hér er viðhöfð mun skipta sköpum fyrir framtíð málsins.

No comments: