Tökum sem dæmi segðina:
Ég sagði það við hana þarna framkvæmdastjórann en hún vildi ekki hlusta á mig þannig ég bara kom mér út og hef ekki heyrt frá henni síðar.Ef við umritum hana aðeins nær framburði; eyðum þöglum hljóðum, og höfum fyrir reglu að orð í íslensku hefjust á aðaláherslu og geti haft á þriðja eða fjórða atkvæði aukaáherslu; þá mundi setningin líta svona út:
É sagðiða viðana þarna framkvæmda()stjórann en ún vildiggi hlustámi þanni é bara kommér út()o()é hefiggi heyrt fráenni síðar.Það er spursmál með hljóðfræðigreiningu langs orðs eins og „framkvæmdastjórann“ eða á milli smáorða eins og „út“ og „og“ sem ég markaði með svigum (), en við getum látið það liggja milli hluta.
Í mæltri nútímaíslensku falla andlagsfornöfn saman við undanfarandi sögn eða forsetningu sem skýrir form eins og „sagðiða“, „viðana“, „kommér“ og „fráenni“. Þegar stutt forsetning eins og „á“ eða „í“ kemur beint á eftir getur orðið þriggja orða samfall: „hlustámi“ og sömuleiðis falla sagnir saman við neitunarögnina ekki sömuleiðis: „vildiggi“ og „hefiggi“. (Hérna getur sömuleiðis orðið þríáleggs samloka: „vilðaiggi“ og „viliddiggi“.)
Hins vegar ber þessari hljóðfræðilegu greiningu ekki alveg saman við setningafræðilega greiningu, því suma þessara hluta má færa til:
Ég sagði það við hana → Það sagði ég við hana → Við hana sagði ég þaðÞannig að setningafræðilega má kannski segja að „það“ sé orð, ekki sagnviðskeyti, enda sjáum við líka að ég fellur líka saman við undanfarandi sögn í slíkri tilfærslu:
Þasagðije viðanaTakið líka eftir því að áherslan fellur nú á „þa'“ en þegar fornafnið „é(g)“ er fremst er áherslan á „sagð-“. Hvaða þýðingu ætli það hafi?
Takið þó eftir að ekki má færa til hlutana í forsetningarliðnum „við hana“. Við getum ekki sagt *„Ég sagði það hana við“ (nema hugsanlega sem einhvers konar skáldlegt stílbragð í ljóði). Hér hegðar hana sér því meira eins og viðskeyti en á eftir sögninni, bæði hljóð- og setningarfræðilega.
Eins má færa neitunarögnina „ekki“ fram fyrir sögn en þá er talsverður hljóðfræðulegur munur á framburði hennar og það mætti færa rök fyrir því að um sé að ræða ólíka hluti: atviksorðið „ekki“ [ˈɛhcɪ] og neitunarviðskeytið „-iggi“ eða -gi, [ɪcɪ], [cɪ]. Ef vettvangsmálvísindamenn væru fyrst að skrásetja og lýsa íslensku máli í dag, gæti ég trúað að það yrði líklegast sú greining sem yrði ofan á.
En með fáeinum undantekningum sem þessari helst íslensk stafsetning að töluverðu leyti í hendur við setningarfræði málsins og því má skýra gjánna milli stafsetningar og framburðar með því sem kallað er orðhlutahljóðfræði (e. morphophonemics).
Í öðrum málum en íslensku er þessi munur milli stafsetningar, framburðar og setningafræði þó enn athyglisverðari. Mætti þar t.d. nefna frönsku, þar sem gjáin milli stafsetningar annars vegar og hljóð- og setningarfræði er gífurleg, á meðan hljóðfræðigreining orða rímar nokkurn veginn við setningarfræðina.
Á frönsku er ritað:
Je lui ai dit — Ég sagði það við hanaGera mætti ráð fyrir að hér væru fjöur orð en bæði hljóð- og setningarfræðilega er um að ræða eitt orð sem ekki má aðskilja né umorða: /ʒəlɥiɛˈdi/. Þetta má greina sem sögn sem markar frumlag og andlag (sem er óalgengt í evrópskum málum sem yfirleitt marka bara frumlag, en hins vegar algengt í öðrum tungumálum heims).
En þar er af nógu að taka og er kannski efni í annan pistil. Látum þetta gott heita að sinni.
No comments:
Post a Comment